Hljóð og litur var ekki alltaf til staðar í kvikmyndum

Kvikmyndir hafa verið gerðar allt frá því seint á 19. öldinni, og hefur gengið á ýmsu frá því að allra fyrsta kvikmyndin leit dagsins ljós. Thomas Edison er faðir kvikmyndaiðnaðarins og var sá allra fyrsti að koma fram á sjónarsviðið með þessa merkilegu sjónhverfingu sem hefur heillað mannkynið allar götur síðan.

Myndirnar voru þó heldur styttri á þessum fyrstu árum og sömuleiðis voru þær án hljóðs fyrstu þrjá áratugi kvikmyndasögunnar. Það er ekki þar með sagt að ekkert hljóð hafi verið í kvikmyndasalnum en oftast nær var undirleikur frá píanói sem spilaði tónlist sem var viðeigandi við hvert atvik sem átti sér stað á skjánum. Stundum voru heilu hljómsveitirnar inni í salnum og var þá gert meira úr hljóðbrellum, t.d. ef einhver datt og slíkt. Það var ekki fyrr en árið 1927 sem kvikmyndir með hljóði fóru að koma í kvikmyndahúsin og gekk það ekki áreynslulaust að koma þessu heim og saman. Á þessum tíma var engin hljóðblöndun í boði og því þurfti að taka allt upp í einu: tal, tónlist og hljóðbrellur. Þó hafðist þetta og í kjölfarið fylgdi liturinn í kvikmyndir.

Til að byrja með voru allar kvikmyndir sem voru framleiddar, eingöngu í svart- hvítu. Þó gerðu framleiðendur tilraunir með liti allt frá upphafi. Edison gerði til dæmis eina mynd í lit fyrir kinetoscope vélar sínar 1895 og árið 1902 kom út kvikmyndin “A Trip To The Moon” sem þótti skara framúr þar sem hún var í lit og með ýmsum tæknibrellum. Til að myndin kæmi í lit var hver myndarammi filmunnar málaður og unnu 21 kona hörðum höndum við að mála rammana. Það var svo ekki fyrr en 1932 að litur fór að sjást fyrir alvöru í kvikmyndum samhliða þeim svart hvítu. Liturinn var heldur gulur og grænn til að byrja með en eftir því sem árin liðu, breyttust litirnir og voru í stöðugri þróun fram á 8. áratuginn.