Upphaf kvikmyndaframleiðslu – Thomas Edison

Kvikmyndasagan er ekki ýkja löng en hefur þróast á ofsahraða frá því að kvikmyndir komu fyrst á sjónarsviðið. Það var í lok 19. aldarinnar sem hinir ýmsu uppfinningamenn fóru að prufa sig áfram í gerð hreyfimynda en þá var einungis um að ræða nokkrar sekúndur af efni sem var teiknað. Ein uppfinningin var Phenakistoscope, apparat sem samanstóð af disk með nokkrum myndum á. Til þess að sjá myndirnar hreyfast þurfti áhorfandinn að kíkja í gegnum gægugat og snúa handfangi sem var tengt diskinum. Þetta er aðeins ein af uppfinningunum sem ruddu brautina fyrir kvikmyndir.

Það var svo Thomas Edison sem kynnti Kinetoscope til sögunnar árið 1891 og má segja að þetta tæki hafi verið fyrsta alvöru kvikmyndaupplifun fólks. Þarna var um að ræða stóran kassa með gægjugati og í gegnum gatið gátu áhorfendur séð stuttar myndir af ljónatemjara í sirkus og álíka skemmtanir. Þetta voru ekki beinlínis kvikmyndir þar sem hver mynd var um það bil 20 sekúndur en kassarnir urðu gríðarlega vinsælir á sínum tíma og voru ódýr skemmtun. Kinetoscope kassarnir voru keyptir inn á bari og raðað upp þar með mismunandi myndbrotum. Edison byggði meira að segja sitt eigið kvikmyndaver, “Black Maria” en þar voru allar stuttmyndirnar fyrir kassana teknar upp. Kinetoscope varð hvatinn að gerð kvikmynda þar sem mekanisminn sem var notaður inni í kössunum var sá sami og var notaður til að varpa kvikmyndum á skjá.

Velgengni Edison smitaði út frá sér og fóru aðrir að reyna fyrir sér í þessum bransa, Edison til mikillar gremju. Á árunum 1900 – 1910 gerði hann margar tilraunir til að einkavæða kvikmyndabransann og kærði alla þá sem framleiddu kvikmyndir. Þessi taktík gekk ekki upp hjá honum og árið 1908 setti hann á fót Motion Picture Patent Company. Edison bauð 9 dreifingaraðilum þátttöku í fyrirtækinu og samkvæmt lögum voru þetta einu aðilarnir sem máttu framleiða og gefa út kvikmyndir. MPPC var lokað árið 1915 og lauk þá einokun Edison á markaðinum.