Ólöglegt niðurhal hefur slæm áhrif á kvikmyndabransann

Það er eflaust hægt að fullyrða að flestir jarðarbúar hafi gaman af góðri kvikmynd eða eigi sína uppáhalds þáttaröð. Þó hefur skapast vandamál fyrir kvikmyndir og þætti: ólöglegt niðurhal.

Þetta vandamál hefur verið viðloðandi síðastliðna tvo áratugi og í upphafi var að mestu leyti verið að stela tónlist. En þróunin á sér stað í þjófnaði rétt eins og öðru og brátt fóru að birtast ólögleg niðurhöl af myndum, leikritum, þáttum og ýmsu öðru. Þetta snertir kannski ekki risana í kvikmyndabransanum en fyrir minni fyrirtæki og kvikmyndaframleiðendur er þetta stærðarinnar vandamál og hefur mikil áhrif á innkomu þeirra.

Frægt var það á Íslandi þegar að hætt var við framleiðslu þáttanna Sönn íslensk sakamál sem sýndir voru á SkjáEinum. Þættirnir voru fyrst framleiddir árið 2001-2002 og urðu mjög vinsælir. Þá var Stöð 2 með sýningar á þáttunum og þóttu þeir verulega áhugaverðir heimildarþættir sem tóku fyrir nokkur af þekktustu glæpamálum Íslands. Framleiðsla var hafin á ný árið 2012 og þá var það sjónvarpsstöðin SkjárEinn sem tók að sér framleiðsluna, þó svo að stöðin væri enn fremur lítil í sniðum. Áætlað var að framleiða nokkrar seríur af þessum áhugaverðu þáttum en eftir að fyrsta þáttaserían var komin á ólöglegar niðurhalssíður, var hætt við áframhaldandi framleiðslu þáttanna. Þessi viðbrögð framleiðanda þáttanna olli miklum áhyggjum á íslenskum kvikmyndamarkaði á sínum tíma, en sem betur fer er enginn skortur á íslensku sjónvarps- og kvikmyndaefni og því ber að fagna. Flestir kvikmyndagerðamenn hafa ekki látið þetta stoppa sig í að framleiða gott og vandað efni.

Þó hefur þetta snert margan sjálfstæða kvikmyndamanninn í gegnum árin. Lögin eru skýr hvað þjófnað á myndefni og tónlistarefni varðar og ríkja sömu lög í öllum löndum. Þó virðist ekkert lát vera á stolnu efni fyrir niðurhalsglaða einstaklinga og þó svo að einni ólöglegri síðu sé lokað, þá opnast önnur síða innan skamms.